Fyrsti sjálfvirki lyfjaskammtarinn afhentur
Nýtist einkar vel í fjarheilbrigðisþjónustu
Um er að ræða samvinnuverkefni milli Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Icepharma um innleiðingu á 25 sjálfvirkum lyfjaskömmturum á heimilum skjólstæðinga Velferðarsviðs.
„Lyfjaskammtarar eru byltingarkennd velferðartækni sem nýtist einkar vel í fjarheilbrigðisþjónustu. Tilkoma þeirra hér á landi styður enn frekar við sjálfstæða og lengri búsetu fólks í heimahúsum, bætir gæði þjónustunnar, eykur skilvirkni og tryggir einstaklingum örugga og rétta lyfjagjöf á tilsettum tíma,“ segir í tilkynningunni.
Sjálfvirku lyfjaskammtararnir frá Evondos munu þjóna íbúum Reykjavíkurborgar sem búa heima en þurfa daglega eða oftar aðstoð og eftirfylgni við lyfjtainntöku. Í lyfjaskammtarann eru settar hefðbundnar lyfjarúllur og les tækið þær upplýsingar sem fram koma á hverjum lyfjapoka og skammtar réttum lyfjum á réttum tíma. Lyfjaskammtarinn er með bæði texta- og raddleiðbeiningum á íslensku, sem styður enn betur við meðferðarheldni.
Hægt er að senda persónuleg skilaboð inn í lyfjaskamtarann, t.d. til að minna viðkomandi á að hann þurfi að nærast eða drekka á ákveðnum tímum og/eða að viðkomandi eigi von á heimavitjun. Einnig er hægt að spyrja um líðan sem einstaklingurinn svarar síðan í gegnum lyfjaskammtarann. Ef einstaklingur gleymir að taka lyfin innan ákveðins tímaramma koma skilaboð eða viðvaranir í miðlægt kerfi svo heimaþjónustan getur brugðist strax við.
Stuðlar að því að fólk getur búið lengur heima
Lyfjaskammtarinn er frá finnska fyrirtækinu Evondos og þjónustar það í dag um 200 heilbrigðisumdæmi á Norðurlöndunum. Evondos er með fjarvöktun á öllum sínum lyfjaskömmturum allan sólarhringinn, allan ársins hring og jafnframt sér Icepharma um þjónustu og viðhald hér á landi.
„Mikil nýsköpun á sér stað í velferðartækni og lausnum sem stuðla að því að fólk getur búið lengur heima hjá sér í öryggi og með þjónustu sem er þeim mikilvæg. Sjálfvirki lyfjaskammtarinn er gott dæmi um slíka lausn og framundan er hröð þróun í notkun velferðartækni við hönnun íbúða fyrir þá sem þurfa á þjónustu að halda,“ segir í tilkynningunni.