Fara í efni
 

Áframhaldandi samstarf Icepharma og Reykjavíkurborgar um sjálfvirka lyfjaskammtara í heimahús

21.02.2023
Tilkynningar
Árangursríkt samstarf Icepharma og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, um þjónustu á sjálfvirkum lyfjaskömmturum í heimahús, hefur verið framlengt til næstu tveggja ára og var samningur undirritaður á dögunum.

Sjálfvirku lyfjaskammtararnir frá Evondos, sem Icepharma er í forsvari fyrir hér á landi, munu þannig áfram þjóna íbúum Reykjavíkurborgar sem búa heima og þurfa aðstoð og eftirfylgni við lyfjainntöku. Lyfjaskammtararnir hafa hlotið frábærar viðtökur hjá bæði starfsfólki sem og íbúum sem nýta sér tæknina. Framlenging á þjónustusamningnum er sannarlega til marks um það og að Icepharma er í fararbroddi að innleiða þessa nýjung í velferðartækni.

Á tímabilinu verða samtals um tvö hundruð sjálfvirkir lyfjaskammtarar í notkun hjá Reykjavíkurborg. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar mun annast móttöku og dreifingu á lyfjaskömmturunum til notenda og mun Icepharma, sem fyrr, starfa ötullega að því að styðja við innleiðingu og þjónustu á lyfjaskömmturunum, íbúum og starfsfólki velferðarsviðs til heilla.

 

Stuðlar að því að fólk getur búið lengur heima við öryggi

Lyfjaskammtarinn er frá finnska fyrirtækinu Evondos og þjónustar það í dag um 200 heilbrigðisumdæmi á Norðurlöndunum. Evondos er með fjarvöktun á öllum sínum lyfjaskömmturum allan sólarhringinn, allan ársins hring og jafnframt sér Icepharma um þjónustu og viðhald hér á landi.

 

Hvernig virkar sjálfvirki lyfjaskammtarinn frá Evondos?

Í lyfjaskammtarann eru settar hefðbundnar lyfjarúllur og les tækið þær upplýsingar sem fram koma á hverjum lyfjapoka og skammtar réttum lyfjum á réttum tíma. Lyfjaskammtarinn er með bæði texta- og raddleiðbeiningum á íslensku, sem styður enn betur við meðferðarheldni.

Hægt er að senda persónuleg skilaboð inn í lyfjaskammtarann, t.d. til að minna viðkomandi á að hann þurfi að nærast eða drekka á ákveðnum tímum og/​eða að viðkomandi eigi von á heimavitjun. Einnig er hægt að spyrja um líðan sem einstaklingurinn svarar síðan í gegnum lyfjaskammtarann. Ef einstaklingur gleymir að taka lyfin innan ákveðins tíma koma skilaboð eða viðvaranir í miðlægt kerfi svo heimaþjónustan getur brugðist strax við.

 

Framtíðin er í velferðartækni

Mikil nýsköpun á sér stað í velferðartækni og lausnum sem stuðla að því að fólk getur búið lengur heima hjá sér í öryggi og með þjónustu sem er þeim mikilvæg. Sjálfvirki lyfjaskammtarinn er gott dæmi um slíka lausn og framundan er hröð þróun í notkun velferðartækni við hönnun íbúða fyrir þá sem þurfa á þjónustu að halda. Tæknilausn sem þessi hefur í för með sér að heimsóknum starfsfólks í heimaumönnun getur fækkað, sem hefur í för með sér sparnað fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi.