Sjálfvirkur lyfjaskammtari í heimahúsum á Íslandi
Síðan í nóvember 2021 hefur Evondos sjálfvirki lyfjaskammtarinn þjónað íbúum sem nýta sér heimaþjónustu Reykjavíkurborgar og víða utan höfuðborgarsvæðis. Umræddir íbúar búa heima en þurfa daglega eða oftar aðstoð og eftirfylgni við lyfjainntöku. Í lyfjaskammtarann eru settar hefðbundnar lyfjarúllur og les tækið þær upplýsingar sem fram koma á hverjum lyfjapoka og skammtar réttum lyfjum á réttum tíma. Lyfjaskammtarinn er með bæði texta- og raddleiðbeiningum á íslensku, sem styður enn betur við meðferðarheldni.
Það má með sanni segja að lyfjaskammtarinn hafi reynst vel í heimaþjónustu Reykjavíkurborgar. Lyfjaskammtarinn hefur létt undir með starfsfólki í heimaþjónustu og íbúarnir sjálfir hafa upplifað aukið öryggi og vissu.
"Lyfjaskammtarar hafa verið til prófana hjá Reykjavík síðan í nóvember 2021, þar sem notendur heimaþjónustunnar hafa fengið lyfjaskammtara til þess að aðstoða þá við lyfjagjöf á heimili sínu. Stór partur af þeirri þjónustu sem heimaþjónustan í Reykjavík veitir er aðstoð við lyfjagjöf. Með lyfjaskammtaranum fá skjólstæðingar lyfin sín á réttum tíma í réttum skammti án beinnar aðkomu starfsmanns, en starfsmenn fylgjast með í gegnum miðlægt kerfi og fá tilkynningar ef lyf eru ekki tekin og geta þá brugðist við. Lyfjaskammtarar hafa reynst vel í heimaþjónustu Reykjavíkurborgar, starfsfólk hefur öðlast meiri tíma til að sinna öðrum þjónustuþáttum og notendur eru almennt ánægðir með tæknina og upplifa öryggi við það að hafa hann á heimilinu." - Kristín Sigurðardóttir, verkefnastjóri í velferðartæknismiðju.
Í myndbandinu hér að neðan má sömuleiðis sjá upplifun íbúa í þjónustu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar af notkun sjálfvirkra lyfjaskammtara.
Sjálfvirkur lyfjaskammtari í fremstu röð
Lyfjaskammtarinn er frá finnska fyrirtækinu Evondos og þjónustar það í dag um 200 heilbrigðisumdæmi á Norðurlöndunum. Evondos eru frumkvöðlar og leiðandi á þessu sviði og samkvæmt Financial Times er það eitt af þeim fyrirtækjum sem vaxa hvað hraðast í Evrópu. Evondos er með fjarvöktun á öllum sínum lyfjaskömmturum allan sólarhringinn, allan ársins hring og jafnframt sér Icepharma um þjónustu og viðhald hér á landi.
Nýsköpun í velferðartækni
Mikil nýsköpun á sér stað í velferðartækni og lausnum sem stuðla að því að fólk getur búið lengur heima hjá sér í öryggi og með þjónustu sem er þeim mikilvæg. Sjálfvirki lyfjaskammtarinn er gott dæmi um slíka lausn og framundan er hröð þróun í notkun velferðartækni við hönnun íbúða fyrir þá sem þurfa á þjónustu að halda.
Fyrir nánari upplýsingar um sjálfvirka lyfjaskammtarann sem og aðrar lausnir í velferðartækni, er hægt að senda tölvupóst á netfangið: velferdartaekni@icepharma.is